Stefnubreyting hjá SVÞ? – fögnum því.

Formaður Samtaka verslunar og þjónustu ritaði góða grein í Morgunblaðið þann 4. Apríl sl. Yfirskrift greinarinnar var „Höldum áfram – samstaðan mun fl

yta okkur langt“ og fjallaði um hversu sterk og þrótt mikil þjóð okkar hefur verið í gegnum tíðina. Einnig kemur hann inná mikilvægi þess að halda uppi daglegu lífi eins og versla á netinu. Með því að versla á netinu þá erum við öll að leggja okkar að mörkum til að halda fyrirtækjum gangandi og neikvæðum afleiðingum COVID faraldursins niðri.

Það er í sjálfu sér allt rétt sem formaðurinn segir í þessari grein og full ástæða til að taka undir hvert orð. En þar sem þessi grein er rituð undir merkjum SVÞ þá óneitanlega leiðir maður hugann að því hvernig félagsmenn SVÞ haga sínum málum í þessum efnum sjálfir.

Í röðum félagsmanna eru stærstu innflytjendur á matvæli sem hafa höggvið verulega í íslenska framleiðslu matvæla með tilheyrandi uppsögnum og niðurskurði í innlendum landbúnaði. Í röðum félagsmanna SVÞ eru fyrirtæki sem hafa kostað gríðarlega miklu til við að halda uppi kröfum um innflutning á enn meira af matvælum en þegar er verið að flytja inn. Ef vilji félagsmanna SVÞ myndi ganga eftir þá væri landbúnaður á Íslandi með öllu lagður niður. Mögulega er þessi grein formanns SVÞ stefnubreyting í þessum efnum og því ber þá að fagna.

Það er óskandi að síðasta málsgrein formannsins sé merki um nýja stefnu SVÞ í innlendri framleiðslu, verslun og þjónustu. Orðrétt segir:

„Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til“.

Það er óskandi að þessi grein sé ekki bara orðin ein heldur verði framkvæmd í verki. Ekki bara núna á COVID tímum, heldur um alla framtíð. Enda mun „samstaðan fleyta okkur langt“, svo ég vitni aftur í formanninn.

Sigmar Vilhjálmsson,

Greinahöfundur er talsmaður FESK

Félag eggjabænda, svínabænda og kjúklingabænda á Íslandi.