Nýtt frumvarp Landbúnaðarráðherra

Það er vissulega fagnaðarefni að verið sé að horfa til neytenda í nýju frumvarpi Landbúnaðarráðherra og að það sé verið að reyna að koma þessum ábata til neytenda. Hins vegar er ekki að sjá nein ákvæði sem tryggja það í frumvarpinu. Frumvarpið skilur eftir þó nokkrar spurningar að mati okkar hjá FESK.

Hollenska útboðið (e. Dutch auction)

Hollenska útboðið sem kallað er „Jafnræðisútboð“ í frumvarpinu, er ekki endilega ávísun á aukna samkeppni, en hún er vissulega til þess fallin að lækka verð til kaupenda (heildsala). Mun það skila sér til neytenda? Það er ekkert í frumvarpinu sem tryggir það og kemur í veg fyrir að heildsalar auki bara arðsemi sína og lækki ekki verð. Auðvelt er að teikna upp margar sviðsmyndir þar sem þetta fyrirkomulag auðveldar ráðandi aðilum á markaði að misnota kerfið.

Breytingar 65. gr. A búvörulaga nr. 99/1993

Það eru spurningar er snúa að 65. gr. A búvörulaga nr. 99/1993 um skilgreiningu á vöruskorti.

Hvernig ætla stjórnvöld að sinna eftirliti með vöruskorti?

Með breytingum á 65. gr. A búvörulaga nr. 99/1993 þá virðist sem að búið sé að rýmka heimildir ráðherra til að auka innfluttning án tolla. Svo virðist sem að ákvarðanir um beytingu þessa „neyðarúrræðis“ verða ekki lengur faglegar eða eins og segir í frumvarpinu: „Þess í stað verði byggt á sögulegri reynslu og tollkvótum fyrir úthlutað á þeim grundvelli.“

Við lögin bætist síðan ný skilgreining á vöruskorti, 65. gr. C hljóðar svo: “Annað þessara skilyrða einnig uppfyllt: a) Vara er ekki til stöðugrar dreifingar samkvæmt umsögn fjögurra ótengdra dreifingaraðila. b) Umsögn fagstofnunar liggi fyrir sem staðfestir að skilyrði samkvæmt greininni séu uppfyllt.”

Hvað þýðir þessi breyting? Ef beita á þessu opna ákvæði, því þarf núna fjóra aðila til að staðfesta náttúruhamfarir eða uppskerubrest? Býður þetta eftirvill uppá þá stöðu að ef það eru ekki fjórir aðilar sem taka þátt í “Jafnræðisútboði“getur þá aðili sem ekki tekur þátt borið við vöruskorti og fengið undanþágu samkvæmt 65. gr. A búvörulaga nr. 99/1993.?

Það er mat FESK að skoða þurfi þessi mál mun betur og sérstaklega í ljósi þess að tilefni frumvarpsins er fyrst og fremst: “…að stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur”. Ekki er hægt að sjá að þessi reglugerð tryggi það með neinum hætti, miklu frekar virðist þetta frumvarp víkka heimildir stjórnvalda til að auka innfluttning umfram tollasamninga og lækka skilyrði til þess.Einnig er hvergi tryggt að heildsalar sem stunda innfluttning skili þessum ábata til neytenda með lægra vöruverði og sagan sýnir að slíkt hefur ekki skilað sér til þessa.

FESK hefur einnig mikinn áhuga á með hvaða hætti vernda á innlenda framleiðslu í ljósi þessarar aukningu í tollkvótum. Í frumvarpinu segir: „Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að innlend framleiðsla njóti áfram ákveðinnar verndar“, meira kemur ekki fram um þann þátt. Samkvæmt þeim tollasamningum sem eru í gildi frá árinu 2015, þá er verið að flytja inn 12% af allri innanlandsneyslu í kjúkling- og svínaafurðum. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Það verður því forvitnilegt með hvaða hætti hið opinbera ætlar sér að vernda innlenda framleiðslu.

Sigmar Vilhjálmsson

Talsmaður FESK